Friday, June 5, 2015

Skúffukakan hennar mömmu

Kakan:
400 gr (7,5 dl) Hveiti
200 gr (3 dl) Sykur
200 gr Smjör
3 Egg
3 tsk Lyftiduft
1 tsk Natron
3 msk Kakó
2-3 dl Súrmjólk

Kremið:
100 gr brætt smjör
1 egg
1/4 pakki flórsykur
1 msk kakó
vanilludropar

Bakist við 170°C í ca.20 mín

Saturday, April 25, 2015

O'Charleys kjúklingasalat

O'Charleys salatið
Fékk þetta á samnefndum veitingastað í Bandaríkjunum. Hef engin mál og hef bara sirkað ofan í salatskálina - og séð hversu margir eru í mat hverju sinni.

Steiktar kjúklingabringur
Gráðostur
Sykurhúðaðar pekan hnetur
Mandarínur
Fersk jarðaber
Trönuber (þurrkuð eða fersk)
Salatmix (hef sett alls konar)
Balsamic vinaigrette sósa

Friday, April 24, 2015

Hnetusteik

Heiðurinn af þessari hnetusteik á kona á Akureyri sem ég man ómögulega hvað heitir. Þessi uppskrift var gerð í sjónvarpsþætti á N4 fyrir nokkrum árum. Geggjuð steik! og allt meðlætið líka

Hnetusteik:
Olía til steikingar
1 laukur
3-4 sellery stönglar
2-4 hvítlauksrif
Allt skorið gróft og léttsteikt í olíunni Verður ca 700gr)

4 meðalstórar gulrætur (soðnar í ca 5 mín) ca300gr
1-2 sætar kartöflur  (brytjaðar og soðnar ca 5 mín) ca 500gr
Ca 800gr soðin hýðis-hrísgrjón eða bygggrjón (verður ca 1kg)
Allt að ofan hakkað saman.

100 gr kashew/pekan hnetur
100 gr jarðhnetur
 100 gr heslihnetur
 Hnetur ristaðar í ofni við ca 150°c í 5-8 mínútur og kurlaðar gróft í matvinnsluvél eða blandara (á snoos)

Krydd
Ca 2 msk Fersk söxuð Steinselja
 Ca 2 msk Karry delux frá Pottagöldrum
 Cayenne duft á hnífsoddi
 Ca 1 tsk Salt
 Ca 2 msk Jurtakraftur eða kjúkklinga kraftur.

 Maismjöl eða spelti til að þykkja ef deigið er of blautt

Öllu blandað saman í höndunum og smakkað til og bragðbætt eftir smekk.
 Sett í (jólaköku form) eða búið til litlar steikur.
 Form steikurnar þarf að bara í 30 mín. Kvolfa svo steikini úr forminu á plötu og baka aftur í ca 20 mín. Við 200°c
 Litlar steikur er nóg að baka í 20 mín við 200°c

Sætkartöflumús:
1 ½ stór sæt-kartafla soðin í ca 15-20 mín
 2-4 msk smjör eða Kókosolía
 Salt og pipar
 Maukað með töfrasprota eða í hrært í hrærivél (ekki þeyta)

Hvítlauks Sveppa sósa:
 3 Hvítlauks rif
 6-8 litlir sveppir
 Smá klípa smjör eða olía til að steikja uppúr
 1og ½ dós Kókos-mjólk
 Grænmetis kraftur, salt og pipar.
 Maismjöl til að þykkja

Rauðrófu epla salat:
 1 Rauðrófa
 1 grænt Epli
 1 msk Hlynsýróp

 1msk sítrónu safi.   3 msk grísk jógúrt eða sýrður rjómi.

Sunday, November 24, 2013

Giftingarsaga ömmu og afa

Amma og ég eyðum oft tíma í að skoða gömul myndaalbúm enda hefur amma mjög gaman af því að segja sögur um hverja einustu mynd. Mér finnst þetta mjög svo dýrmætt því margar sögurnar eru mjög áhugaverðar og í raun alveg merkilegt líf sem amma er búin að lifa. Um helgina vorum við að skoða albúmið sem inniheldur allar giftingarmyndirnar af ömmu of afa.

Amma og afi giftu sig 21.desember 1955 í kaþólskri kirkju í Madrid sem heitir Iglesia de Santa Teresa y santa Isabel.
Á þessum tíma var mikið mál (á Spáni) að fólk frá ólíkri trú væru að gifta sig. Í þá daga máttu kærustupör ekki einu sinni fara saman upp í íbúð heldur þurftu þau að hittast á kaffihúsum. Þetta var á yfirráðatímum Franco og sagði amma að það hefði verið mikið sjokk að koma til Spánar frá Kólumbíu. Hún sagði að það væri eins og að fara aftur um nokkrar aldir, svo gamaldags var allt.
Þegar þau ákváðu að gifta sig þá var fyrsta mál á dagskrá að afi þurfti að skrifa bréf til langafa (sem amma skrifaði, því afi var ekki nógu góður í spænsku) og biðja um hönd ömmu. Hér fyrir neðan er mynd af bréfinu sem langafi sendi til baka og segir frá hvað Elvíra er búin að vera góð dóttir og verði án efa góð eiginkona.

Annað mál var að finna kirkju sem þau máttu gifta sig í og í þriðja lagi að finna prest sem vildi gifta þau. Amma gekk á milli kirkna en allir neituðu vegna þess að afi var kristin. Henni var svo bent á að biskupinn í Kólumbíu væri staddur í Madrid í 6 mánuði og e.t.v. gæti hann aðstoðað hana við að finna prest. Til að gera langa sögu stutta endaði það með því að biskupinn hringdi í ömmu og bauðst til þess að framkvæma athöfnina sjálfur því hann vildi sýna “útlendingnum afa” að kaþólsk trú væri falleg og öllu var tjaldað fyrir athöfnina (á þessum tíma voru kólumbíumenn mun frjálslegri en spánverjar að sögn ömmu). 
Það var svo konsúllinn í Kólumbíu sem gaf ömmu til hjónabands (sem staðgengill langafa) og kona hans fylgdi afa upp að altari. Eftir athöfnina fóru gestir saman út að borða, en þá var ekki hefð að halda stóra veislu. 
Afi og amma héldu svo í frí suður til Costa del Sol og þaðan til Marokkó þar sem þau eyddu tveimur vikum áður en það kom að því að þau fluttu heim til Íslands og amma fékk þá þar vægt menningarsjokk!
Bréfið sem langafi skrifaði til afa

Blaðatilkynning í Kólumbísku blaði um giftingu
afa og ömmu.
Á litlu myndunum er amma 4ja ára og afi um 5 ára


uppi t.v. amma 5 ára.
niðri t.h. afi 3 ára
uppi t.h. og niðri t.v. amma á giftingardaginn

Amma og Soledad frænka hennar. Hún var eina úr fjölskyldunni
hennar sem hafði tækifæri til að mæta en hún var
búsett í Frakklandi. 

Amma að undirbúa sig fyrir athöfnina

Biskupinn að hefja athöfnina. Fólkið hvoru megin við ömmu og afa
eru konsúlhjónin frá Kólumbíu sem fylgdu þeim upp að altari.

Amma og afi gullfalleg

Hér eru konsúlhjónin aftur með þeim

Amma með Kólumbíska konsúlnum.

Monday, November 18, 2013

Spanjólaland vol.3 Córdoba

Fallega sólsetrið sem var í Los Boliches fyrir nokkrum dögum


Nú er spænskuskólinn komin á fullt og mikið að meðtaka fyrstu dagana!


Á mánudaginn byrjuðu herlegheitin og erum við 4 stelpur sem byrjuðum núna. Mér finnst það mjög fínt því kennslan verður mjög persónuleg og kennarnir eru mjög fínir. Það eru nokkrir bekkir á öllum erfiðleikaþrepum svo það er mikið um að vera og mikið líf í skólanum.
Eftir skóla á mánudaginn fór ég í fyrsta flugtúrinn en það var checkout með kennara. Hann sýndi mér aðeins svæðið og flugum meðfram Costa del Sol ströndinni.

Á þriðjudaginn fórum við stelpurnar með fleirum úr skólanum að skoða safn hér í Malaga sem sýnir svona helstu listamenn og áhrif í Malaga. Þar sem þetta var nú bara annar dagurinn og kannski ekki alveg reiprennandi í spænskunni vorum við svolítið eins og fiskur á þurru landi þegar við föttuðum að leiðsögukonan talaði bara spænsku um allt safnið. En ég náði nú alltaf einhverjum orðum og náði svona pínu að bjarga mér með samhengið.

Vikan leið hratt og nóg að læra í spænskunni. Föstudagstíminn endaði að allir (byrjendur sem og reyndari nemendur) fóru í eldhúsið og elduðum saman paella og sungum saman á spænsku.

Laugardagurinn fór í skólaferðalag upp til Córdoba. Það er stolt Spánverja hvað varðar sögu og kúltúr. Þetta er 2. elsti bærinn í Evrópu og voru Kaþólikkar, gyðingar og múslimir sem lifðu þar í sátt og samlyndi á miðöldum. Þetta þykir einstakt hvað varðar trúarsögu víðs vegar um heiminn.

Frægasta húsið þar er Mezquita de Córdoba. Þetta er kaþólsk kirkja sem var upprunalega byggð sem moska og er því kirkjan nokkurn veginn inn í moskunni. Mjög áhugavert að sjá. Við náðum þó ekki að skoða moskunni mjög ítarlega því við lentum óvart í hátíð sem córdobabúar halda. Allar konurnar (sjá myndband fyrir neðan) og kallarnir voru uppábúnir og var löng skrúðganga þar sem gengið var frá kirkjutorginu inn í kirkjuna sjálfa.
Amma glæsileg í hádegismat

Paella y vino tinto

Rómversk brú í Córdoba. Mjög sjaldgæft að sjá svona á þessum
slóðum.

Kaþólski kirkjuturninn. Viðbyggingin við moskuna í Córdoba.

Gullfiskar sýndu sitt besta í heimsókn í kastalanum í Córdóba

Arabísk letur sem er einungis búið að þýða hluta af.
Virðist vera hin mikla ráðgáta.

Ófáar götur sem við sáum svona í Córdoba

Kastalagarðurinn

Eina myndin sem ég þorði að taka inn í moskunni. Það var messa að byrja
og allt í lögreglumönnum að banna manni að taka myndir...eeen


Við kastalann í Córdoba. Fornleifafræðingar fundu þetta ekki alls fyrir löngu
og eru enn að grafa.

Mjög svo týpískt hús í Córdoba

Almenningssalernið á miðöldum í kastalanum. Öll loft voru
skreytt stjörnum. 

Einn hallargarðurinn

Endalaust af svona stigum

Útsýnið frá kastalanum. Brúin vel sjáanleg

Íbúar Córdoba voru búin að útbúa sams konar altari útum allan
bæ í tilefni dagsins.Gömul vatnssmiðja. Ef vel er að gáð má sjá mann sitja við árarbakkann
að veiða í mestu makindum.

Sannfærði kráareiganda hér rétt hjá til að sýna
Íslandsleikinn þrátt fyrir að barinn var fullur
og á öllum hinum skjánum voru hinir úrslitaleikirnir
í gangi :)

Föstudagurinn í skólanum. Útbúa Paella


Saturday, November 9, 2013

Spanjólaland vol.2

Fimmtudagurinn fór í maraþongöngu um Malagaborg (sjá mynd fyrir neðan; rúm 15.000 skref tekin). Ég fór og hitti Raquel hjá flugskólanum í Malaga og ætla vonandi að ná að fljúga smá á meðan ég verð hérna. Um að gera að nýta tímann og veðrið. Einnig þá ætlar hún að fá mig til að koma upp í bóklegu deildina öðru hvoru því þar eru nokkrir flugnemar sem tala litla sem enga ensku og vilja endilega fara í eins konar "skiptisamtal". Þeir reyna að læra einhverja ensku af mér, og á móti þá læri ég vonandi eitthvað á móti á spænsku. Lýst vel á það.

Frá flugskólanum tók löng ganga að finna spænskuskólann sem ég verð í næstu 10 vikur. Tímarnir byrja á mánudaginn en ég ákvað að fara fyrst og sjá hvar hann er svo ég myndi ekki týnast á mánudagsmorgninum. Sem var eins gott því ég hefði mætt alltof seint ef ég hefði ekki gert þetta. Spánverjarnir eru ekki að hafa miklar áhyggjur að merkingum. En ég er að minnsta kosti með á hreinu núna hvar þetta er og búin að finna strætóinn sem fer mig beinustu leið frá lestarstöðinni.

Í Fuengirola fann ég mér líkamsrækt sem kemst næst því sem er heima á Íslandi. Þær eiga til að vera svolítið fátæklegar þessar ræktir sem ég hef komið auga á í útlöndum. Allavega þá er hún á strandgötunni svo ég get farið beint eftir ræktina og fengið mér smá hvíld á ströndinni ef ég vil, og svo er líka sauna og heitur pottur til að hvíla sig eftir átökin. Ekki slæmt það.

Í dag (laugardag) fór ég með ömmu og fékk mér kaffibolla með íslenskum hjónum sem búa hér rétt hjá. Þau búa í Grafarvoginum en fara til Spánar yfir vetrarmánuðina. Indæl hjón þau tvö. Þau og amma hittast alltaf á hverjum laugardegi kl.12 á sama kaffihúsinu.
Annars fór nú restin af laugardeginum í afslöppun og chill á ströndinni. Um að gera að nýta þessa sól eitthvað á meðan maður er hér og sólin skín skært (var um 24°C í dag).

Áhugaverð staðreynd:
Það er þáttur sem amma horfir á daglega sem heitir "Entre Todos" sem útleggst á íslensku "Meðal allra". Þátturinn gengur þannig að fjallað er um einhvern sem er atvinnulaus og/eða mjög fátækur og þáttastjórnandinn er í raun að sannfæra áhorfendur um að gefa þeim pening, húsnæði og/eða vinnu. Fólk hringir inn og gefur þeim pening o.s.frv (einn áhorfandi gaf kjöt sem dugar í 200 hamborgara því ein atvinnulaus kona langar svo að opna hamborgarastað). Áhugavert hvernig þetta myndi ganga upp í íslensku sjónvarpi.

Verkefni næstu daga: Finna einhvern sportbar sem ætlar vonandi sýna Ísland-Króatía (og svo Króatía-Ísland)!

Amma gerir krossgátur á hverjum degi til þess að þjálfa hugann.
Ef þið takið eftir límdu bókinni á borðinu, þá er þetta spænsk orðabók sem
pabbi notaði þegar hann var í skóla í Kólumbíu í denn.
Amma notar hana til að hjálpa sér með erfið orð

Skúlptúr til minninga um spænska Pesóinn.

Málverk sem amma málaði eftir frægu forsíðunni á
National Geographic

Ótal byggingar í Malaga svipaðar þessari.

Var svolítið uppgefin eftir daginn í Malaga.

Það leynast ýmis torg milli bygginga og lengst
inn í hverfunum í Malaga

Plátanos. Þetta eru steiktir hrábananar. Viðbjóðslegir að smakka
þegar þú tekur hýðið af en þegar þeir eru eldaðir eru þeir ljúffengir!

Krúttlega kryddhillan hennar ömmu. Takið eftir gömlu lýsiskrukkunni
á neðstu hillunni

Það sem umhverfið breytist á 20 árum. Amma málaði efri myndina á
nákvæmlega sama stað og neðri myndin er tekin.
Þá var hún að mála útsýnið frá íbúðinni.

Kom mér loksins á ströndina að njóta veðursins aðeins


Þessir bresku félagar skemmtu mér á meðan ég lá á ströndinni.
Þeir eru allir klæddir í kvenmannsföt og voru að spila rugby og drekka bjór.
Veit ekki alveg hvað var málið með þá.

Wednesday, November 6, 2013

Spanjólaland vol.1


Þá er maður komin til elsku ömmu. Líður aðeins of langt milli heimsókna en maður er alltaf svo upptekin að tíminn flýgur frá manni. En ég er loksins komin og er ánægð að minnið stendur fyrir sínu því leigubílstjórinn sem keyrði mig heim frá flugvellinum rataði ekkert hérna í Fuengirola og ég gat leiðbeint honum nákvæmlega göturnar til að komast til ömmu. High five fyrir mér.

Hitinn hérna er rosa þægilegur. Það er enn heitt og gott fyrir okkar íslendingablóð þó ömmu finnist vera orðið pínu kalt! (ég er í stuttbuxum og hlýrabol á meðan amma er í buxum og gollu)

Amma Elvíra er orðin 91.árs svo sú gamla veit hvað hún syngur. Nokkur dæmi um lífsreglurnar:
"Alltaf gott að fá sér eitt rauðvínsglas á dag til að hjálpa hjartanu að pumpa blóði"
"Horfðu á spurningakeppnir til að halda hausnum í lagi og reyna aðeins á hann"
"Hérna má maður aldrei drífa sig. Allir eru svo slakir"
"Ég fer í leikfimi 2var í viku. Hinir gamlingjarnir fara þrisvar en þau eru miklu yngri en ég. Þeir sem eru janfgamlir eru annað hvort hættir að komast eða dauðir"

Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá nágrenninu svona 1.daginn og ég ætla reyna að setja inn einhverjar myndir hér svo ég sé ekki að spamma instagram og facebook. Annars fór dagurinn bara í göngutúr með ömmu og redda mér símanúmeri og fann svo þessa fínu rækt til að vera í á meðan dvölinni stendur :)

Amma að lesa tölvupósta fyrir mig (Sunna, hún var rosa ánægð með póstinn og myndirnar)

Ekta kólumbískur eftirréttur, Guayaba (hlaup úr ávexti) og Arequipe (karamella).
Þetta er alltaf keypt þegar við erum í heimsókn. Vilhjálmur kláraði síðast heila
krukku af karamellunni á einu kvöldi ef það hjálpar ykkur við að ákveða hversu
gott þetta er.


Fyrsta Spænsk-Íslenska orðabókin

Strandgatan

Langamma (amma málaði þetta)

Inn til ömmu

Á svölunum borðum við morgun- og hádegismatinn

Málaverk prýða næstum hvern vegg hérna hjá henni. Flest öll eru eftir ömmu sjálfa.
Útsýnið frá svölunum heima. Er ca.5 mín að labba frá húsinu niður að strönd